Fellibylurinn Flossie stefnir á Hawaii

Á þessari gervitunglamynd, sem var tekin í dag, sést hvernig …
Á þessari gervitunglamynd, sem var tekin í dag, sést hvernig Flossie nálgast Hawaii. AP

Yfirvöld á Hawaii í Bandaríkjunum hafa lýst yfir neyðarástandi í ríkinu þar sem von er á fellibylnum Flossie. Yfirvöld hafa lokað skólum og látið setja upp neyðarskýli, en fellibylurinn nálgast nú suðausturhluta eyjaklasans.

Fram kemur á fréttavef Reuters að það hafi aðeins dregið úr styrk Flossie í gær er hann fór úr því að vera fjórða stigs fellibylur í það að vera þriðja stigs fellibylur. Þrátt fyrir það er litið á Flossie sem hættulegan fellibyl sem er með skýra og afmarkaða miðju, að því er fellibyljamiðstöð bandarísku veðurstofunnar greindi frá.

Ekki talið að styrkur Flossie muni koma til með að breytast næsta sólarhringinn.

Snemma í gær hófst sérstök fellibyljavakt á Hawaii, en talið er að Flossie verði komin í um 130 km fjarlægð frá svokölluðu Stóru Eyju um kl. 14 að staðartíma (að miðnætti að íslenskum tíma).

Búist er að vindhraðinn verði á bilinu 65-80 km á klst. og að sjávaraldan muni ná rúmlega fjögurra metra hæð. Þá er einnig búist við því að úrhellisrigning fylgi í kjölfarið.

Borgarstjóri Hawaii-eyju, Harry Kim, lýsti yfir neyðarástandi í dag, en alls búa um 160.000 manns á eyjunni. „Við lítum á þetta mjög alvarlegum augum,“ sagði fjölmiðlafulltrúi Kims.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka