Rudy Giuliani, sem hefur nú forustu í baráttunni um útnefningu sem forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins á næsta ári, segir að það þjóni ekki hagsmunum Bandaríkjanna að stofnað verði sjálfstætt Palestínuríki sem „styðji við bakið á hryðjuverkamönnum.“
Þetta kemur fram í grein sem Giuliani skrifar í tímaritið Foreign Affairs. Þar segir hann ennfremur að of mikil áhersla hafi verið lögð á friðarumleitanir Ísraela og Palestínumanna, sem hann segir að fari í sífellda hringi.
Giuliani segir að „hryðjuverkastríðið“ svokallaða ætti fremur að heita „stríð hryðjuverkamanna gegn Bandaríkjunum,“ og spáir langvinnri baráttu gegn „róttækum, íslamískum fasistum.“ Þá kveðst Giuliani telja, að bandarískur her muni enn verða í Írak og Afganistan þegar nýr forseti tekur við völdum í Bandaríkjunum í janúar 2009.