Rannsaka myndband er virðist sýna aftöku í Rússlandi

Rússnesk yfirvöld eru að rannsaka myndband sem virðist sýna hægri öfgamenn taka tvo menn af lífi. Myndbandið var birt á nokkrum vefsetrum og á því má sjá annan manninn afhöfðaðan og hinn skotinn. Annað fórnarlambið var frá rússneska sjálfstjórnarlýðveldinu Dagestan, en hinn frá Tadjíkistan, að því er fram kemur á myndunum.

Hópur sem kallar sig Þjóðernissósíalista og hvítt vald hefur lýst aftökunum á hendur sér. Ofbeldi gegn fólki frá Kákasuslýðveldunum og löndum í Mið-Asíu hafa færst í vöxt í Rússlandi á undanförnum árum.

Talsmaður rússneska innanríkisráðuneytisins sagði að rannsókn málsins hefði leitt í ljós að netþjónarnir sem vistuðu myndbandið séu erlendis. Hafi erindi þegar verið sent til yfirvalda í viðkomandi ríkjum.

Fórnarlömbin eru með hendur og fætur bundna og fregnir herma að heyra megi þá segja: Við höfum verið handteknir af rússneskum þjóðernissósíalistum. Tveir menn með grímur heilsa að nasistasið áður en aftökurnar fara fram.

Ekki hefur verið staðfest að myndbandið sé ekta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert