Fyrst voru það asískir innflytjendur nú múslimar

Pauline Hanson
Pauline Hanson AP

Ástralski öfgahægrimaðurinn Pauline Hanson, sem kom af stað mikilli reiðibylgju í Ástralíu á tíunda áratugnum þegar hún gerði það að helsta kosningamáli sínu að berjast gegn innflytjendum frá Asíu, greindi frá því í dag að nú snérist kosningabarátta hennar um að berjast gegn múslimum.

Hanson, sem er fyrrverandi þingmaður og leiðtogi stjórnmálaflokksins One Nation ætlar að bjóða sig fram til þings í kosningum sem fram fara í Ástralíu síðar á árinu. Hefur hún stofnað nýjan stjórnmálaflokk Pauline's United Australia Party.

Í sjónvarpsviðtali í dag sagði hún að stefna hennar hefði ekkert breyst, einungis takmarkið. Segir hún nauðsynlegt að huga betur að innflytjendastefnu Ástralíu og hún vilji stöðva komu fleiri múslimskra innflytjenda til Ástralíu. Eins kvartaði Hanson yfir því að innflytjendur frá Afríku bæru með sér alls konar sjúkdóma.

Hanson, sem áður rak veitingastað sem seldi fisk og franskar, var kjörin á þing árið 1996 en helsta efni hennar í pólitískum ræðum á þeim tíma var sú hætta sem stafaði af innflytjendum frá Asíu. Öfgafull viðhorf Hansons voru gagnrýnd harðlega á sínum tíma. Hún missti þingsæti sitt árið 1998. Árið 2003 sat hún um tíma í fangelsi fyrir fjársvik en dóminum var síðan snúið við í yfirrétti.

Þingkosningar fara fram í Ástralíu síðar á árinu en forsætisráðherra landsins, John Howard, hefur ekki gefið upp dagsetninguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert