Mörg hundruð létust í jarðskjálftanum í Perú

Yfirvöld telja að 337 manns hafi dáið í jarðskjálftanum.
Yfirvöld telja að 337 manns hafi dáið í jarðskjálftanum. Reuters

Tala látinna í jarðskjálftanum í Perú í nótt fer stöðugt hækkandi og nú er talið að minnstakosti 337 manns hafi látist og mörg hundruð slasast samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum landsins. Allir hinna látnu fyrir utan einn létust í grennd við borgina Ica sem er um 265 km sunnan við höfuðborgina Lima en þar búa um 650 þúsund íbúar.

Samkvæmt fréttavef BBC var gefin út flóðbylgjuviðvörun í Perú, Chile, Ekvador og Kólumbíu en hún var síðar dregin tilbaka.

Heimili hrundu í höfuðborginni, Lima, og hljóp fólk út á göturnar við skjálftann og margir eyddu nóttinni á götum úti. Upptök skjálftans voru um 40 km undir yfirborði jarðar en skjálftinn lék borgina Ica hvað verst. Heilbrigðisráðherra landsins, Carlos Vellejos sagði að ástandið í Ica væri „dramatískt" og að verið væri að senda sjúkraliða og hjúkrunarfólk þangað.

Jarðskjálftinn varð klukkan 18.41 að staðartíma en þá vantar klukkuna 19 mínútur í miðnætti að íslenskum tíma og stóð hann í margar mínútur. Upptökin urðu undir Kyrrahafi um 145 km suð-austan við Lima. Fjórir snarpir eftirkippir mældust síðan á bilinu 5,4 til 5,9.

Umferð um háannatímann stöðvaðist er byggingar sveifluðust til í höfuðborginni og hundruð manna þustu út á göturnar. Mestu urðu áhrifin þó í Ica sem er nær upptökunum, þar hrundu byggingar, rafmagn fór af og símalínur og samskipti rofnuðu.

Margir dvelja enn á götum höfuðborgarinnar af ótta við frekari skjálfta.

Fólk dvaldi utandyra í nótt af ótta við frekari jarðskjálfta.
Fólk dvaldi utandyra í nótt af ótta við frekari jarðskjálfta. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert