Indverski flugherinn fór í fyrsta flugið á herþyrlu sem hefur verið hönnuð og smíðuð þar í landi með fjöldaframleiðslu fyrir bæði innlendan og erlendan markað í huga. Þyrlan sem nefnist Dhruv er smíðuð af ríkisfyrirtækinu Hindustan Aeronautics (HAL) og sögðu yfirmenn þar að þyrlan væri gjöf til Indlands á sextugsafmælinu.
Dhruv er sögð vera létt hátækniþyrla búin bestu vopnakerfum sem völ er á og er reiknað með að það sé markaður fyrir um 250 slíkar fyrir Indverska flugherinn og 50 til viðbótar í borgaralegri og vopnlausri útgáfu og reiknast framleiðendunum til að innlendi markaðurinn sé um tveir og hálfur milljarður Bandaríkjadala.
Einnig er reiknað með að Dhruv keppi við Eurocopter-þyrluna um viðskipti við lönd á borð við Tyrkland, Chile og Bólivíu sem eru sögð vera að skoða hvort gera eigi tilboð í vélarnar.
Dhruv-þyrlurnar verða búnar hreyfli af gerðinni Shakti sem HAL hefur þróað í samvinnu við franska fyrirtækið Turbomeca.