Með átaki og herferð finnskra yfirvalda hefur þeim tekist að fækka sjálfsvígum um 40% á síðast liðnum 15 árum. Þrátt fyrir það eru flest sjálfsvíg í Evrópu framin í Finnlandi. Landið hefur lengi vermt efsta sætið á þessum lista og því var lagt í átak í finnskum skólum og heilbrigðisstofnunum á árunum 1992-1996.
Í grein í Svenska Dagbladet í vikunni kemur fram að sjötti hver Finni íhugar sjálfsmorð á hverju ári. Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök finnskra karlmanna á aldrinum 20-34 ára og flestir beita skotvopnum.
Samkvæmt Svenska Dagbladet fjölgar sjálfsvígum ungra kvenna í Finnlandi í takt við aukna drykkju og áfengisvandamála meðal þeirra.
Á Íslandi þyrfti að gera svipað átak
Sveinn Magnússon framkvæmdastjóri Geðhjálpar sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hér á landi þyrfti fara í átak gegn sjálfsvígum líkt og í Finnlandi og opna umræðuna um sjálfsvíg, geðraskanir og þunglyndi í þjóðfélaginu.
„Við þurfum að tala opinskátt um sjálfsvíg og fara ekki í felur með þetta," sagði Sveinn.
Hann sagði jafnframt að hann vildi gera umfjöllun um geðheilbrigði að föstum pósti í grunnskólastarfinu til að fólk læri að þekkja hættumerkin og hægt verði að veita fólki hjálp áður en það er orðið um seinan.