Milljarðamæringurinn og tæknisnillingurinn John J. Donovan var í dag dæmdur fyrir að hafa logið til um að það hafi verið skotið á hann af leigumorðingjum sem sonur hans réð til verksins. Á Donovan yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi og 500 dala sekt fyrir athæfið.
Donovan greindi frá því við skýrslutöku hjá lögreglu að tveir ókunnugir menn hefðu ráðist á hann og skotið að honum á bílastæði við skrifstofu hans í Cambridge þann 16. desember 2005. Sagði hann lögreglu að sonur sinn hafi tekið 180 milljónir dala út af reikningi hans og hótað að myrða hann.
Saksóknari var hins vegar ekki sannfærður um sekt sonarins og sagði að Donovan hefði skáldað árásina upp til þess að hefna sín á syninum. En Donovan hefur staðið í dómsmáli við börnin sín fimm um árabil um auðæfi fjölskyldunnar sem eru metin á hundruð milljónir dala.
Við réttarhöldin sýndi saksóknari myndband þar sem Donovan sést snúa öryggismyndavél frá bílastæðinu degi fyrir árásina. Eins fannst minnismiði í vasa Donovans þar sem helstu útlínur voru dregnar upp um framgang árásarinnar.
Donovan var prófessor við Massachusetts Institute of Technology frá 1969 til 1997. Hann er mjög eftirsóttur fyrirlesari og hefur einnig komið af stað fjölda tæknifyrirtækja og gefið út 11 bækur. Hann stofnaði meðal annars Cambridge Technology Partners, ráðgjafafyrirtæki á sviði tæknimála og er félagið metið á yfir einn milljarð dala.