Alan Garcia, forseti Perú hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í Perú, enn er verið að tína lík úr rústum í borgum og bæjum í Suður-Perú en tala látinna er talin vera komin upp í 500. Lík- og sjúkrahús eru yfirfull eftir skjálftann sem mældist 8 stig og reiknað er með að tala látinna eigi eftir að stíga.
Garcia forseti lýsti í gær yfir neyðarástandi og í dag var ákveðið að þjóðarsorg ríki í þrjá daga í landinu og að opinberar stofnanir á borð við skóla, söfn og herstöðvar skuli vera lokaðar í þann tíma.
Forsetinn sendi í gær þrjá ráðherra úr ríkisstjórn sinni á svæðið og Reuters fréttastofan skýrði frá því að í dag hafi hann sjálfur heimsótt skjálftasvæðið.
Talsmaður Sameinuðu Þjóðanna, Margareta Wahlstöm segir í samtali við BBC að rafmagn og sími liggi niðri og að um 80% húsa hafi hrunið á skjálftasvæðinu og að eyðileggingin sé gríðarleg.
Wahlström sagði að nú þegar væru ýmsar hjálparstofnanir innan SÞ búnar að lofa næstum því einni milljón Bandaríkjadala til hjálparstarfsins.