Handtökuskipun gefin út á hendur dóttur Saddams

Raghad Saddam Hussein.
Raghad Saddam Hussein. AP

Alríkislögreglan Interpol hefur gefið út handtökuskipun á hendur Raghad Saddam Hussein, elstu dóttur fyrrum forseta Íraks. Er Raghad, sem flúði frá Írak til Jórdaníu árið 2003 eftir innrás Bandaríkjamanna og fleiri ríkja, sökuð um hryðjuverkastarfsemi og önnur afbrot.

Raghad tók þátt í að skipuleggja vörn föður síns fyrir dómstólum í Bagdad en Saddam var dæmdur til dauða og hengdur á síðasta ári fyrir glæpi gegn mannkyninu.

Írösk stjórnvöld skráðu Raghad og móður hennar, Sajidu, á síðasta ári á lista yfir eftirsótta glæpamenn og fullyrtu að þær styddu uppreisnina í Írak. Breska ríkisútvarpið BBC hafði í gær eftir embættismönnum í íraska innanríkisráðuneytinu, að Interpol hefði tilkynnt aðildarríkjum sínum um handtökuskipunina.

Áður en Saddam var tekinn af lífi á síðasta ári bað Raghad um að lík hans yrði grafið í Jemen tímabundið þar til innrásarherirnir yrðu reknir frá Írak.

Stjórnvöld í Jórdaníu sögðu á síðasta ári, að Raghad byggi þar og hefði sótt um hæli. Ekki er vitað hvort hún dvelur þar nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert