Baðst afsökunar á heimsókn á nektardansstað

Kevin Rudd.
Kevin Rudd. AP

Kevin Rudd, leiðtogi áströlsku stjórnarandstöðunnar, gæti átt erfiða tíma í vændum en fjölmiðlar í Ástralíu upplýstu í dag, að Rudd hefði heimsótt nektarstað í New York fyrir fjórum árum þegar hann var fulltrúi ástralska þingsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

„Ég býst við að fá slæma útreið í skoðanakönnunum á næstunni," sagði Rudd við Nine Network sjónvarpsstöðina í dag. Rudd gæti orðið forsætisráðherra ef Verkamannaflokknum gengur vel í kosningum sem væntanlega verða í haust.

Blöð í eigu News Corp. í Ástralíu skýrðu frá því í dag að Rudd, sem er 49 ára, hefði árið 2003 heimsótt nektarstaðinn Scores á Manhattan í New York ásamt öðrum áströlskum þingmanni og ritstjóra blaðsins New York Post. Í fréttinni er haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að starfsmenn staðarins hafi þurft að áminna Rudd um að snerta ekki dansmeyjarnar.

„Ég man ekkert eftir því," sagði Rudd í dag. „Við höfðum drukkið of mikið, ég viðurkenni það, en aðalmistökin voru að fara á þennan stað."

Rudd, sem er fjölskyldumaður og trúrækinn, hefur að undanförnu reynt að ná til trúrækinna kristinna kjósenda með því að ræða um eigin trú. Er það óvenjulegt í áströlskum stjórnmálum þar sem trúarbrögð og stjórnmál eru vegnjulega aðskilin.

Rudd segir, að þetta mál sýni ekki að opinber ímynd hans sé leiktjöld ein. „Ég hef sagt að ég hafi galla og veikleika eins og aðrir."

Ritstjórinn sem var með Rudd á nektarstaðnum heitir Col Allan og er ástralskur starfsmaður News Corp. Haft er eftir honum í blöðunum að Rudd, sem á þessum tíma var talsmaður Verkamannaflokksins í utanríkismálum, hafi hagað sér eins og sannur heiðursmaður. Þingmaðurinn, Warren Snowdon, segir það rangt að Rudd hafi fengið viðvaranir í klúbbnum eða snert dansmeyjar.

Verkamannaflokkur Ástralíu, sem hefur tapað undanförnum fernum kosningum þar í landi, hefur náð umtalsverðu forskoti á núverandi stjórnarflokka samkvæmt skoðanakönnunum eftir að Rudd var kjörinn leiðtogi flokksins í desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert