Ástralskur karlmaður, 21 árs að aldri, hefur verið handtekinn fyrir að mynda með farsíma sínum kvikmyndina um Simpson fjölskylduna í kvikmyndahúsi í Sydney og dreifa á netinu. Maðurinn hefur verið kærður fyrir brot á lögum um höfundarrétt og á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi verði hann fundinn sekur.
Afriti af myndinni var dreift um vefsvæði og höfðu rúmlega 3.000 manns sótt hana áður en hún var frumsýnd í Bandaríkjunum samkvæmt AFACT samtökum sem berjast gegn hugverkastuldi. Þetta afrit, sem sagt er hafa verið það fyrsta sem komst á netið, var svo rakið til Sydney.
Samstarf alríkislögreglu Ástralíu, framleiðandans 20th Century Fox og AFACT varð svo til þess að afritið var fjarlægt af vefsíðum innan 72 klukkustunda. Síðan hafa þó fleiri útgáfur komið fram og er kvikmyndinni dreift á svokölluðum sjóræningjavefjum líkt og ótal öðrum kvikmyndum.