Ali Larijani, yfirmaður öryggismála í Íran, neitaði í dag fyrir hönd íranskra stjórnvalda að sveit úr röðum Byltingarvarðarins, sérsveitar landsins, starfi í Írak að því að kveikja frekari ófrið í landinu.
Bandarískur hershöfðingi sagði í gær að um 50 meðlimir sérsveitarinnar væru að störfum í Írak og þjálfuðu öfgasinnaða sjíta í hernaði, með það fyrir augum að gera árásir á bandarískar og íraskar öryggissveitir.
„Ef það eru 50 hermenn úr röðum Quds-sveitarinnar í Írak, nefnið þá fimm þeirra”, sagði Larijani í dag. Þá sagði hann alrangt að írönsk vopn hefðu verið send til Íraks. Quds-sveitin, er leynisveit Byltingarvarðarins og er skilgreind af bandarískum stjórnvöldum sem hryðjuverkahópur.