Larisa Arap, sem er liðsmaður í hreyfingu Garrí Kasparov sem berst gegn stjórnvöldum í Rússlandi, var látin laus í dag eftir að henni hafði verið haldið nauðugri á geðdeild í 46 daga.
Arap, sem býr í hafnarborginni Múrmansk, var lögð inn á geðdeild þann 5. júlí og segja félagar hennar það hafa verið gert í hefndarskyni fyrir að hún kom upp um meinta misnotkun á börnum á barnageðdeild á svæðinu.
Mannréttindasamtök mótmæltu vistun Arap og var hún látin laus eftir að sendinefnd á vegum mannréttindasamtaka sem rannsakaði innlögn hennar sagði að engin ástæða hafi verið fyrir því að leggja hana inn á geðdeild.
Arap var flutt á geðdeild með valdi eftir að hún fór til læknis til þess að fá vottorð um að hún væri heil á geðsmunum en slíkt er lagaskylda í Rússlandi þegar ökuskírteini er endurnýjað. Að sögn dóttur Arap lét læknirinn lögreglu vita þegar hann komst að því að Arap var ein þeirra sem hafði gagnrýnt meðferð á börnum á barnageðdeild í grein sem birtist í dagblaði stjórnarandstöðunnar.
Fleiri úr hreyfingu Kasparovs, þar á meðal Kasparov sjálfur, hafa verið handtekin af lögreglu en Arap er sú fyrsta í hreyfingunni sem er neydd í vistun á geðdeild.