Námuverkamenn í Utah að öllum líkindum látnir

Frá björgunaraðgerðum í námunni í síðustu viku
Frá björgunaraðgerðum í námunni í síðustu viku Reuters

Fjölskyldur námuverkamannanna sex sem saknað hefur verið frá því að náma hrundi í Utah fyrir tveimur vikum hafa verið varaðar við því að mennirnir séu að öllum líkindum látnir, og finnist hugsanlega aldrei. Bob Murray, einn eigenda námunnar fundaði með ættingjum verkamannanna í dag og sagðist svartsýnn á að þeir muni finnast.

Sumir ættingjar mannanna hafa gagnrýnt að björgunarmenn séu að gefast of snemma upp. Vinnu neðanjarðar var hætt í síðustu viku eftir að þrír björgunarmenn létust þegar hluti námunnar hrundi, en hún er talin of hættuleg til að réttlætanlegt sé að vera þar við störf.

Ekkert hefur spurst til mannanna síðan slysið varð en hljóðnemar og myndavélar hafa verið látnar síga niður án árangurs. Björgunarstarf heldur þó áfram og er nú unnið að því að bora holu ofan í námuna, þá fimmtu, sem nær rúmlega 2000 fet niður í námuna. Borhola sem náði 1.500 fet, 457 metra undir yfirborð jarðar sýndi að súrefni þar var ekki nægilegt til að halda lífi í mönnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert