Spænska ríkissjónvarpið hefur ákveðið að hætta að sjónvarpa nautaati á þeim forsendum að hinn blóðugi bardagi nauts og nautabana, sem nær alltaf lýkur með ósigri nautsins, sé of ofbeldisfullur fyrir unga áhorfendur.
Mikil hefð er fyrir þessari þjóðaríþrótt Spánverja og hefur nautaati verið sjónvarpað allt frá því að tilraunaútsendingar hófust á Spáni árið 1948, meira að segja var nautaat í Madrid allra fyrsta efnið sem sent var út í tilraunaskyni.
Stjórnarandstæðingar í miðju-íhaldsflokknum PP hafa gagnrýnt ákvörðunina, sem tekin var af ríkisstjórn sósíalista í landinu. Hún er þó raunar fremur talin táknræn en róttæk, því útsendingum ríkissjónvarpsins frá nautaati hefur fækkað undanfarin ár, og stóð aðeins til að senda út um tylft bardaga í vetur, af þeim hundruðum sem fram fara á hverju ári. Úrvalið er hins vegar nóg á einkasjónvarpsstöðvum, og verður enn um sinn.
Þrátt fyrir að fæstir Spánverjar sæki nautaat reglulega þá virðist ekki hafa myndast víðtæk samstaða um að hætta íþróttinni, sem mörgum þykir afar grimmdarleg. Spánverjar líta svo á að nautaatið sé hluti af menningu þjóðarinnar, þótt þeim sé ekki öllum vel við það.