Héraðsdómur í Växjö í Svíþjóð hefur bannað konu að reykja á stórum hluta landareignar sinnar en nágranni konunnar, sem er lögfræðingur, kærði reykingar hennar fyrir ári. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
“Mér finnst eitthvað mikið vera að. Mér er bannað að reykja í mínum eigin garði,” segir konan í viðtali við sydsvenskan.se. “Þetta er algerlega rangt. Og hvað á þetta að koma mörgum til góða? Þetta er jú frelsissvipting.”
Lögfræðingurinn segist hafa slæmt ofnæmi fyrir reyk og að hann verði að nota grímu til að komast frá útidyrum heimilis síns að bíl sínum. Konan segir hann hins vegar ganga með grímu hvort sem hún reyki eða ekki. Þá segist hún ætla að virða dóminn en reykja eins nálægt heimili mannsins og henni sé unnt, miðað við þær takmarkanir sem á henni hafi verið settar.