Fídel Kastró hefur það ,,mjög gott” og er ákveðinn í að ná sér að fullu af veikindum sínum að sögn Perez Roque, utanríkisráðherra Kúbu. Kastró, sem er 81 árs gamall, hefur ekki sést opinberlega síðan hann gekkst undir bráðauppskurð í þörmum, og hefur bróðir hans síðan sinnt störfum forseta.
Felipe Perez, sem er í heimsókn í Brasilíu, sagði blaðamönnum þar í dag að forsetinn aldni hefði það mjög gott og sinnti endurhæfingunni af aga. Þá sagði Perez Roque að Kastró væri í stöðugu sambandi við meðlimi stjórnarinnar á Kúbu.
Lítið hefur heyrst af heilsu forsetans undanfarna mánuði, og þykja talsmenn Kúbustjórnar ekki ræða af sama sannfæringarkrafti um að Kastró muni snúa aftur til starfa og áður.