Sendi forsætiráðherra fingur í pósti

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Reuters

Liðsmaður samtaka hægri öfgamanna í Japan hefur verið handtekinn fyrir að skera af sér fingur og senda fingurinn til Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins, en það gerði hann í mótmælaskyni vegna þeirrar ákvörðunar forsætisráðherrans að fara ekki að minnismerki um fallna japanska hermenn í Tókýó þann fimmtánda ágúst. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Abe ákvað að verða ekki við minningarathöfn við Yasukuni minnismerkið en Japanar minnast uppgjafar sinnar í síðari heimsstyrjöldinni þann 15. ágúst ár hvert. Heimsóknir fyrirrennara hans í starfi hafa veið mjög umdeildar og skapað spennu í samskiptum Japana og Suður-Kóreumanna og Kínverja sem líta á minnismerkið sem tákn útþenslustefnu Japana.

Með fingrinum sendi maðurinn mótmælabréf og tölvudisk sem sýndi er hann skar af sér fingurinn. “Ég taldi að ég yrði hunsaður sendi ég einungis bréfið, þannig að ég sendi litlafingurinn með,” hefur Kyodo fréttastofan eftir manninum.

Algengt er að glæpamenn í Japan skeri fingur af þeim sem þeir telja sig eiga sökótt við og að fólk þar í landi skeri af sér fingur til að undirstrika iðrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka