Útfararstofa brennd í Ísrael

Ísraelsk útfararstofa, sem býður upp á bálfarir, skemmdist mikið í bruna í gærkvöldi en talið er að kveikt hafi verið í húsnæði hennar eftir að greint var frá því í blaði bókstafstrúaðra gyðinga hvar hún væri staðfett. Útfararstofan hóf að bjóða upp á bálfarir fyrir tveimur árum en mikil andstaða er við bálfarir í Ísrael. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Útfarastofan er staðsett á samyrkjubúi og var töluverð hætta talin á ferðum þar sem gaskútar voru staðsettir skammt frá húsinu sem kveikt var í. Þá segja eigendur útfarstofunnar að þeir hafi nýlega látið lögreglu vita af sögusögnum um að bókstafstrúarmenn hefðu í hyggju að kveikja í húsnæðinu.

Yehuda Meshi Zahav, talsmaður bókstafstrúarsamtakanna ZAKA sem hafa barist gegn bálförum, neitar því að samtökin tengist brunanum. "Við höfum átt í baráttu við þá um langt skeið. Þeir höfðu ekki tilskilin starfsleyfi frá heimbrigðisráðuneytinu en hið opinbera gerði ekkert til að stöðva starfsemina þrátt fyrir að kveðið sé á um það í lögum að einungis jarðarfarir séu heimilaðar. Þegar við fréttum af staðsetningunni sögðu íbúar í nágrenninu okkur að þeir hefðu orðið varir við slæma lykt upp á siðkastið. Ég geri ráð fyrir að einhverjir hafi ekki getað litið framhjá þessari niðurlægingu hinna látnu og ég tek ofan fyrir þeim. Við sáum niðurlæginguna. Byggingin var staðsett á milli tveggja hænsnahúsa. Þar voru lök ötuð í blóði og öskunni var hent í ruslið. Staðurinn hlaut að brenna og hann brann.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert