WHO varar við hættunni á heimsfaraldri

Á undanförnum fimm árum hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin greint yfir 1.100 heimsfaraldra …
Á undanförnum fimm árum hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin greint yfir 1.100 heimsfaraldra á borð við kóleru, mænusótt og fuglaflensu. Reuters

Smitsjúkdómar dreifast nú hraðar á milli manna en nokkru sinni fyrr. Þetta segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) í nýrri ársskýrslu. Þar er bent á að þar sem yfir 2,1 milljarður manna fljúgi á hverju ári er aukin hætta á því að nýr heimsfaraldur á borð við alnæmi, ebóla-sjúkdóminn eða bráðalungnabólgu brjótist út.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur til þess að meira verði lagt af mörkum til þess að sporna við því að sjúkdómar breiðist út, og að ríki heims deili með sér veiruupplýsingum svo hægt verði að þróa bóluefni.

Stofnunin bendir á að verði þetta ekki gert geti það haft alvarleg áhrif á hagkerfi heimsins og alþjóðaöryggi.

Í skýrslunni, sem ber nafnið „A Safer Future“, segir stofnunin að nýir sjúkdómar líti dagsins ljós á hraða sem ekki hefur áður þekkst í mannkynssögunni, eða einn sjúkdómur á ári.

Frá áttunda áratug seinustu aldar hafa 39 nýir sjúkdómar orðið til og á undanförnum fimm árum hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin greint yfir 1.100 heimsfaraldra á borð við kóleru, mænusótt og fuglaflensu.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert