Mörg þúsund vísindamenn, viðskiptamenn og matreiðslumeistarar komu víða að til að funda í Moskvu í vikunni. Efni ráðstefnunnar var eitt af þekktari táknmyndum Rússlands, kartaflan. Moscow Potato 2007 er fyrsta alþjóðlega kartöfluráðstefnan sem haldin hefur verið.
Markmið ráðstefnunnar var að fá helstu sérfræðinga heims í kartöflutengdum fræðum til að skiptast á skoðunum, snjallræðum og leiðum til að gera veg kartöflunnar sem mestan um víða veröld.
Moskva var talin vera vel við hæfi. New York gengur undir nafninu Stóra Eplið en Moskva er stundum nefnd Stóra Kartaflan í því samhengi.
Pétur Mikli færði Rússum kartöfluna fyrir 300 árum. Bændur voru tregir til í fyrstu, kölluðu hana epli djöfulsins en brátt náði hún jafnmiklum ef ekki meiri vinsældum en kál og rauðrófur í rússneskri matargerð.