Átta kíló af geislavirku úrani er saknað í Kína. „Týnda“ úranið hefur orðið til þess að fresta hefur þurft dómsuppkvaðningu í máli fjögurra manna sem eru sakaðir um að hafa reynt að selja efnið á svarta markaðinum.
Fram kom fyrir dómstóli í Guangzhou, sem er höfuðborg Guangdong-héraðsins í Suður-Kína, að fjórmenningarnir hafi reynt að selja efnið, sem hægt er að nota til þess að búa til kjarnorkusprengjur, á milli 2005 og 2007.
Mennirnir voru handteknir í janúar í ár eftir að lögreglan fékk ábendingu frá manni sem þóttist ætla að kaupa efnið af þeim. Þrátt fyrir að mennirnir fjórir sitji í gæsluvarðhaldi, hefur lögreglan ekki getað fundið úranið.
Mennirnir hafa haldið því fram að efnið hafi týnst sökum þess hversu oft þeir hafa flutt það á milli væntanlegra kaupenda.
Dómur verður ekki kveðinn upp yfir mönnunum fyrr en efnið finnst. Á meðan munu réttarhöldin halda áfram.
Samkvæmt kínverskum lögum mega mennirnir búast við 10 ára fangelsisdómiri fyrir að hafa reynt að selja úranið. Í sumum tilfellum er hægt að dæma menn til dauða.
Að sögn yfirvalda er ekki óttast að úranið muni springa en það er hinsvegar talið vera skaðlegt fólki.