Skildu ársgamla stúlku eftir í bíl í steikjandi hita

Lögreglan í Solna við Stokkhólm bjargaði í gær ársgamalli stúlku úr bíl, sem stóð í sólskininu á þaki bílastæðahúss en foreldrar stúlkunnar höfðu skilið hana eftir eina í bílnum. 28 stiga hiti var í forsælu en lögreglan áætlar að hitinn í bílnum hafi verið um 50-60 gráður. Talið er að stúlkan hafi verið inni í bílnum í 40 mínútur þegar lögreglan kom að.

Sænska blaðið Expressen segir að vegfarendur hafi séð litlu stúlkuna eina í bílnum í hitanum og látið lögregluna vita. Lögreglumenn brutu rúðu í bílnum til að ná stúlkunni út. Að sögn blaðsins var stúlkan nokkuð dösuð en jafnaði sig fljótt.

„Ég hefði ekki skilið hundinn minn eftir lokaðan inni í fimm mínútur í þessum hita," hefur blaðið eftir lögreglumanninum Johan Ahlén. „Fólk hefur látið lífið við svona aðstæður."

Foreldrar stúlkunnar og eigandi bílsins komu að honum um 10 mínútum eftir að stúlkunni var bjargað. Þau sögðust ekki hafa gert sér grein fyrir því að það gæti orðið svona heitt í bílnum. Að sögn blaðsins gæti fólkið átt yfir höfði sér fangelsisvist fyrir glæpsamlega vanrækslu við barn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert