Orðrómur um að Kastró sé allur

Fídel Kastró með Hugo Chavez, forseta Venesúela, í janúar.
Fídel Kastró með Hugo Chavez, forseta Venesúela, í janúar. Reuters

Orðrómur er um að Fídel Kastró, forseti Kúbu, sé allur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkur orðrómur fer á kreik en í þetta skipti hefur hann verið langvinnari en venjulega, m.a. vegna þess að talsvert er síðan stjórnvöld á Kúbu hafa birt nýjar myndir af forsetanum.

Haldið var upp á 81. afmælisdag Kastrós þann 13. ágúst og þá vakti það athygli sérfræðinga í málefnum Kúbu, að ekki birtust opinberar myndir af afmælisbarninu. Orðrómurinn fór samt á flug fyrir alvöru þegar bandaríski bloggarinn Perez Hilton, sem oft er fyrstur með fréttirnar af frægu fólki, fullyrti að Kastró væri látinn. Hann hefur neitað að gefa upp heimildarmenn sína en segir að þess sé ekki langt að bíða, að opinber staðfesting fáist á þessu.

Kúbönsk stjórnvöld segja, að Kastró sé í afturbata eftir erfið veikindi. Rúmt ár er liðið frá því Kastró afhenti daglega stjórn landsins í hendur Raúl bróður sínum. Myndir af Kastró að taka á móti öðrum þjóðarleiðtogum hafa þó birst með nokkuð jöfnu millibili þar til fyrir tveimur mánuðum.

„Kastró hefur það gott. Hann er í stöðugu sambandi við leiðtoga flokksins og ríkisstjórnarinnar," sagði Felipe Perez Roque, utanríkisráðherra Kúbu í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert