Samkomulag gert um framtíð Kristjaníu

Borgarhlið Kristjaníu.
Borgarhlið Kristjaníu. mbl.is/Ómar

Íbúar í fríríkinu Kristjaníu í Kaupmannahöfn hafa skrifað undir samkomulag við Slots- og Ejendomsstyrelsen, sem fer með eigur danska ríkisins, um framtíð Kristjaníu. Í því felst m.a. að sjóður mun reisa ný hús á svæðinu sem munu ekki stinga í stúf við þær byggingar sem fyrir eru.

Þá gerir samkomulagið einnig ráð fyrir því að danska ríkið mun ekki taka einhliða ákvarðanir um niðurrif húsa í Kristjaníu og jafnframt skuldbinda íbúarnir sig til að breyta ekki byggingum.

Þá mun dómsmál, sem íbúar Kristjaníu voru að undirbúa gegn ríkinu, verða sett í salt. Verður endanleg afstaða tekin til þess hvort málaferlum verður haldið áfram í júlí á næsta ári þegar reynsla er komin á framkvæmd samningsins.

Nú verður gert deiliskipulag fyrir svæðið. Kristjaníubúar hafa nokkrum sinnum hafnað tilboði ríkisins um samkomulag um uppbyggingu Kristjaníu vegna þess að þeir hafa talið að ýmis atriði stríddu gegn Kristjaníuandanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert