Bandaríkjamenn náðu næstum bin Laden árið 2004

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. AP

Bandarískar hersveitir höfðu næstum handsamað hryðjuverkaleiðtogann Osama bin Laden í Afganistan veturinn 2004-2005 og stuðningsmenn bin Ladens íhuguðu að ráða hann af dögum til að tryggja að hann yrði ekki handsamaður. Bandaríska fréttatímaritið Newsweek skýrir frá þessu í dag.

Fylgdarlið bin Ladens hafði fyrirmæli um að ráða leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda af dögum og ráða sér einnig bana til að komast hjá handtöku. Litlu munaði að gripið yrði til þessara ráða og notað fyrirfram ákveðið lykilorð til að hefja aðgerðirnar en þá héldu bandarískar hersveitir, sem stefndu að fylgsni bin Ladens, í aðra átt.

„Ef taldar voru 99% líkur á að (bin Laden) yrði handsamaður, skipaði hann mönnum sínum að þeir ættu allir að deyja og gera hann einnig að píslarvotti," hefur tímaritið eftir Egyptanum Sheikh Said, einum af leiðtogum al-Qaeda. Er tímaritið þar að vitna í samtal Saids við talibanaleiðtogann Omar Farooqi.

Þessir atburðir áttu sér stað á landamærasvæðinu milli Afganistan og Pakistan.

Newsweek fjallar um leitina að bin Laden og segir hana hafa lítinn árangur borið undanfarin ár. Ekki sé vitað hvar hann sé niðurkominn og bandaríska leyniþjónustan hafi ekki fengið trúverðugar upplýsingar um ferðir hans frá því snemma árið 2002.

Tímaritið hefur eftir embættismönnum, að þeir telji að al-Qaeda sé enn að undirbúa umfangsmiklar árásir á Vesturlönd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert