Bush fagnar samkomulagi Íraksleiðtoga

George W. Bush Bandaríkjaforseti.
George W. Bush Bandaríkjaforseti. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti segist fagna því sáttarsamkomulagi sem íraskir leiðtogar hafa undirritað. Bush varar þó við því að enn sé margt eftir óunnið í baráttunni við að kveða niður trúarbragðaátök í Írak.

Bush lét ummælin falla í dag, degi eftir að Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, tilkynnti um samkomulagið sem stjórnmálaleiðtogar sjíta, súnníta og Kúrda undirrituðu.

„Þessir leiðtogar [...] viðurkenna þá sönnu og þýðingafullu sátt sem verður að eiga sér stað,“ sagði Bush.

Bandarískir stjórnmálamenn hafa að undanförnu verið harðorðir í garð ríkisstjórnar Malikis. „Samkomulagið frá því í gær endurspeglar þá skuldbindingu þeirra (leiðtoga Íraks) að vinna saman í þágu allra Íraka,“ sagði Bush er hann var staddur í Albuquerque í Nýju-Mexíkó.

Bush sagði að samkomulagið væri mikilvægt skref, en að hann hafi sagt við Íraksleiðtogana að margt væri enn eftir ógert.

„Íraska þingið mun koma saman snemma í september og það þarf að binda þetta stjórnmálaferli í lög,“ sagði Bush.

Bandaríkjastjórn hefur þrýst mjög á að þetta samkomulag náist. Hún segir að þetta sé mikilvægt skref í áttina að því að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar og binda enda á trúarátökin í Írak.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert