Hugo Chavez, forseti Venesúela og náinn vinur Fidel Castro, Kúbuleiðtoga, hefur vísað á bug sögusögnum um að hann sé látinn. “Það ergir þá sem vilja Fidel feigan en Fidel Castro mun aldrei deyja heldur lifa að eilífu með kúbönsku þjóðinni, íbúum Venesúela og allrar Ameríku,” sagði hann. Grein sem sögð er vera eftir Castro var birt í blaðinu Juventud Rebelde um helgina en í greininni er fjallað um sögu kúbönsku uppreisnarinnar og ekki minnst á veikindi Castros. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Orðrómur kom nýlega upp um að Castro væri allur en talsvert er síðan stjórnvöld á Kúbu hafa birt nýjar myndir af forsetanum. Haldið var upp á 81. afmælisdag Castros þann 13. ágúst og þá vakti það athygli sérfræðinga í málefnum Kúbu, að ekki birtust opinberar myndir af afmælisbarninu. Orðrómurinn fór samt á flug fyrir alvöru þegar bandaríski bloggarinn Perez Hilton, sem oft er fyrstur með fréttirnar af frægu fólki, fullyrti að Castro væri látinn. Hann hefur neitað að gefa upp heimildarmenn sína en segir að þess sé ekki langt að bíða, að opinber staðfesting fáist á þessu.