Alberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér að sögn þarlendra embættismanna. Gert er ráð fyrir að Paul Clement, aðstoðardómsmálaráðherra, taki við embættinu til bráðabirgða. Gonzales hefur átt undir högg að sækja vegna ýmissa embættisverka, þó einkum vegna þess að átta ríkissaksóknarar voru reknir úr starfi á síðasta ári.
AP fréttastofan hefur eftir háttsettum embættismanni, að Gonzales hafi lagt fram afsagnarbréf sitt sl. föstudag. Ekki er búið að tilkynna formlega um afsögn ráðherrans, sem var einn af nánustu samstarfsmönnum Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta.
Gonzales var lögfræðilegur ráðgjafi í Hvíta húsinu áður en Bush skipaði hann dómsmálaráðherra árið 2005. Hann hvatti til þess, að völd forsetaembættisins yrðu aukin og lagði m.a. línurnar um að draga úr réttindum fanga, sem vistaðir voru í herfangelsinu við Guantánamoflóa. Gonzales hefur sætt harðri gagnrýni demókrata fyrir að klúðra rannsókn á heimildarlausum hlerunum, sem tengdust hryðjuverkarannsóknum, og brottreksturs ríkissaksóknaranna en demókratar fullyrða að hin raunverulega orsök þess brottreksturs hafi verið sú að saksóknararnir létu ekki undan þrýstingi frá þingmönnum repúblikana í viðkvæmum málum.