Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, segir að Frakkar muni ekki standa í veginum fyrir nýrri samningalotu milli Tyrkja og Evrópusambandsins en ítrekaði andstöðu sína við að Tyrkland fái fulla aðild að Evrópusambandinu.
Sarkozy segir að viðræðurnar verði að taka á málum eins og hvort Tyrkir fái fulla aðild að ESB eða einungis takmarkaða aðild. Hann segist telja að viðræður við Tyrki eigi ekki að fara fram fyrr en ákvörðun er tekin um stækkun ESB eða fram framtíð sambandsins á næstu mánuðum eða árum. Sarkozy lét þessi orð falla á árlegri ráðstefnu franskra sendiherra þar sem hann lagði línurnar í utanríkisstefnu Frakklands.
Sarkozy hefur hingað til barist ötullega gegn inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið. Er hann þar í andstöðu við meirihluta leiðtoga þeirra 27 ríkja sem mynda Evrópusambandið.