Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, varði í dag þátttöku breskra hermanna í Írak. Hann sagði að að þeir hafi „mikilvægu starfi að gegna“ í hinu stríðshrjáða landi.
Í skriflegu svari við bréfi til Menezies Campell, sem er leiðtogi frjálslyndra demókrata er sitja í stjórnarandstöðu, hafnaði Brown að verða við þeirri kröfu að brotthvarf breskra hermanna frá Írak verði tímasett með nákvæmum hætti.
Um 5.500 breskir hermenn eru í Írak, en flestir þeirra eru í og við borgina Basra í suðurhluta landsins. Það er hinsvegar stefnt að því að fækka þeim fyrir árslok, sem nemur 5.000 hermönnum.
„Það er ekki rétt að segja að með áframhaldandi veru breskra hersveita í Írak verði ekki til neins, eða að það sé afar takmarkað sem þær geta gert,“ skrifaði Brown.
„Breskar hersveitir í Basra hafa enn möguleikann á því að gera árásir á uppreisnarhópa og tryggja öryggi. Þær munu halda áfram að starfa með íröskum yfirvöldum og öryggissveitum og koma þeim á þann stað að þau geti axlað fulla ábyrgð á eigin öryggi.“
Brown bætti því við að breskir hermenn í Írak hafi „augljósum skyldum að gegna.“