Haider vill banna moskubyggingar

Austurríski hægrimaðurinn Jürg Haider hefur lýst því yfir að hann hyggist fara fram á það við þing Kärnten-héraðs að það banni byggingu moska í héraðinu en Haider er héraðsstjóri þess. Segist hann vilja skylda borgar- og bæjaryfirvöld í héraðinu til að taka trúarleg og menningarleg sjónarmið með í reikninginn þegar þau fari yfir umsóknir um byggingarleyfi. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz

„Við viljum ekki árekstra á milli menningarheima og við viljum ekki stofnanir sem eru framandi menningu okkar verði byggðar í Vestur-Evrópu, segir í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér um málið. „Múslímar hafa að sjálfsögðu rétt til að biðjast fyrir en ég er mótfallinn því að moskur og bænahús verði reist sem miðstöðvar trúarlífs þeirra og notaðar sem auglýsingar um mátt íslam.”

„Það er fáránlegt að lýsa því yfir að hann óttist árekstra," segir Omar al-Rawi, þingmaður og talsmaður samtaka austurískra múslíma."„Ég veit ekki til þess að nokkur áform séu uppi um byggingu mosku þar. Aðgerðir hans eru tilgangslaust auglýsingaskrum sem byggir á kynþáttafordómum og hatri á íslam.”

Um 11.000 múslímar búa í Kärnten en alls eru íbúar héraðsins um 400.000 og er hlutfall múslíma þar með því minnsta í Austurríki.

Múslímar í Evrópu mæta nú aukinni andspyrnu við byggingu moska en íslam er nú sú trú sem næstflestir Evrópubúar aðhyllast. M.a. hafa áform um byggingu moska í London í Bretlandi og Marseille í Frakklandi verið kærð, efnt hefur verið til fjöldamótmæla vegna slíkra áforma í Colonna á Ítalíu og til átaka hefur komið vegna þeirra í Berlín í Þýskalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert