Írönsk stjórnvöld kölluðu Gunillu von Bahr, skrifstofustjóra sænska sendiráðsins í Tehran á fund í dag til að mótmæla teiknimynd, sem birtist af Múhameð spámanni í sænsku blaði. Á myndinni sést höfuð Múhameðs á skrokki hunds.
Að sögn talsmanns sænska utanríkisráðuneytisins var Von Bahr sagt, að skopmyndin væri móðgandi í garð spámannsins.
Umrædd teikning er eftir sænska listamanninn Lars Vilks, en myndaröð hans af spámanninum í líki hunds hefur valdið nokkru uppnámi í Svíþjóð. Nokkur listagallerí hafa neitað að sýna teikningarnar af ótta við viðbrögð múslima.
Blaðið Nerikes Allehanda, sem gefið er út í Örebro, birti eina teikninguna fyrir rúmri viku ásamt leiðara þar sem fjallað var um sjálfsritskoðun og trúfrelsi.
Ulf Johansson, aðalritstjóri blaðsins, segir að í leiðaranum hafi verið gagnrýnt hve margir neituðu að birta teikningu Vilks.
Hópur um 60 múslima hélt mótmælafund utan við ritstjórnarskrifstofur blaðsins á laugardag til að mótmæla myndbirtingunni.
Danska blaðið Jyllands-Posten birti í september 2005 tylft skopmynda af Múhameð með þeim afleiðingum að mótmælaaðgerðir voru gegn Danmörku í fjölda múslimaríkja.