Mistök við fóstureyðingu vekja mikið umtal á Ítalíu

Mistök, sem gerð voru við fóstureyðingu á Ítalíu, hafa vakið upp miklar umræður um réttmæti slíkra aðgerða. Hafa meðal annars komið fram ásakanir um að verið sé að stunda skipulagðar arfbætur.

38 ára gömul kona í Mílanó gekk með tvíbura og greindist annað fóstrið með Downs heilkenni. Ákveðið var að eyða því fóstri í júní sl. en fyrir mistök var heilbrigða fóstrinu eytt. Fréttir af þessu birtust hins vegar ekki fyrr en nú. Læknar segja, að mistökin hafi verið gerð vegna þess að fóstrin hafi hreyfst til frá því rannsókn fór fram og þar til aðgerðin var gerð.

„Það er tímabært að endurskoða fóstureyðingarlögin," skrifaði Paola Binetti, öldungadeildarþingmaður, í grein í blaðinu Corriere della Sera í dag.

Binetti, sem er á vinstri væng ítalskra stjórnmála og hefur náin tengsl við Páfagarð, segir að á sjúkrahúsinu hafi ekki farið fram fóstureyðing af læknisfræðilegum ástæðum heldur í þágu arfbóta.

Livia Turco, heilbrigðisráðherra, segir hins vegar að fóstureyðingalöggjöfin sé afar skynsamleg og henni verði ekki breytt. Rómversk-kaþólska kirkjan og ítalskir íhaldsmenn hafa lengi haft horn í síðu löggjafarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert