Dönsku jómennirnir komnir í land í Djibouti

Fimm danskir sjómenn, sem voru í haldi sjóræningja úti fyrir Sómalíu I 82 daga, eru nú komnir til hafnar í Djibouti þar sem fámenn sendinefnd frá danska utanríkisráðuneytinu tók á móti þeim. “Ég get ekki veitt læknisfræðilegar upplýsingar um ástand þeirra en það virtist liggja vel á þeim og þeir líta hraustlega út ,” segir Uffe Wolffhechel, skrifstofustjóri ráðuneytisins. “Þeim virtist létta mjög við það að komast í land” þetta kemur fram á danska fréttavefnum Erhverv på Nettet.

Til stendur að mennirnir hitti sérfræðinga í áfallahjálp og lögreglumenn sem staðið hafa í samningaviðræðum um lausn þeirra, áður en þeir halda áleiðis til Danmerkur en ákveðið var að fjölskyldur mannanna færu ekki til móts við þá, heldur yrði áhersla lögð á að koma þeim heim sem fyrst.

“Það var talið að betra væri að þau hittust á ný í Danmörku. Sálfræðingar telja að það sé heppilegast að hafa það þannig auk þess sem það er ekki auðvelt að komast hingað,” segir Wolffhechel. “Eftir ferð mína hingað hef ég misst alla trú á áætlunum okkar. Hlutirnir ganga aldrei eins og við gerum ráð fyrir í þessum heimshluta. Við vonumst þó til að koma heim einhvern tíma í kvöld.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert