Bandaríkjaher mun ekki heimila bandarískum hermönnum að svara spurningum breskrar rannsóknarnefndar sem rannsakar árás bandarískrar hersveitar á breska hermenn í Afganistan fyrir sex dögum en þrír breskir hermenn létu lífið í árásinni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt heimildum breska blaðsins Times hefur fulltrúi Bandaríkjahers skrifað breskum stjórnvöldum og gert þeim grein fyrir því að herinn muni ekki heimila bandarískum hermönnum að koma fyrir nefndina.
Bresku hermennirnir voru við eftirlitsstörf í Helmand héraði í Afganistan er bandaríski flugherinn varpaði sprengju á þá.
Bandaríkjaher neitaði einnig að veita hermönnum sínum heimild til að koma fyrir breska rannsóknarnefnd eftir að breskur hermaður lét lífið í árás bandarískra hermanna í Afganistan árið 2003.