Bandaríski þingmaðurinn Larry Craig berst nú fyrir pólitísku lífi sínu eftir að hann var handtekinn á salerni á flugvellinum í Minneapolis í júní og ákærður fyrir að ósiðlega framkomu gagnvart öðrum karlmanni. Craig játaði þá brot sitt og slapp með smávægilega sekt en nú hefur málið komist í fjölmiðla og í kjölfarið hefur Craig gefið yfirlýsingar um að hann sé saklaus og ekki samkynhneigður.
Craig, sem er 62 ára og hóf nýlega þriðja kjörtímabil sitt sem þingmaður repúblikana fyrir Idaho, kom fram á blaðamannafundi í gærkvöldi ásamt eiginkonu sinni og reyndi að skýra gerðir sínar. Sagði hann sérkennilega hegðun sína á flugvellinum hafa stafað af því að stærsta blað Idaho hefði verið að rannsaka fortíð hans.
Blaðið Idaho Statesman birti í gær langa grein þar sem kemur fram að Craig hafi áður sýnt af sér hegðun sem bendi til samkynhneigðar. Craig margítrekaði á blaðamannafundinum að hann væri ekki samkynhneigður og sagði blaðið stunda nornaveiðar. Blaðið svaraði með yfirlýsingu og sagði að staðreyndirnar töluðu sínu máli.
„Ég sýndi ekki af mér óviðeigandi hegðun á flugvellinum í Minneapolis eða annarstaðar en ég ákvað að játa á mig smávægilegt brot í þeirri von að málinu yrði þar með lokið," sagði Craig. „Það er þó ljóst, að gerðir mínar hafa varpað skugga á Idaho og ég bið íbúa Idaho afsökunar á því."