Gerry McCann, faðir Madeleine McCann, missti nýverið stjórn á sér í sjónvarpsviðtali á spænsku sjónvarpsstöðinni Telecinco en sjálfstjórn foreldranna hefur vakið athygli og jafnvel grunsemdir þá rúmlega hundrað daga sem liðnir eru frá því að stúlkan hvarf. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Í viðtalinu voru foreldrarnir hvað eftir annað spurðir um rannsókn málsins en samkvæmt portúgölskum lögum mega þau ekki tjá sig opinberlega um hana. Þau voru m.a. spurð að því hvort þau væru þau síðustu sem hefðu séð Madeleine á lífi og svaraði Gerry því þá til að þar sem spurningin tengdist rannsókn málsins gæti hann ekki svarað henni.
Fréttamaðurinn spurði þá um blóð sem fannst í hótelíbúðinni þar sem Madeleine svaf áður en hún hvarf. Gerry hristi þá höfuðið fjarlægði hljóðnemann sem hann var með og hvæsti að fréttamanninum: “Þetta snýst allt um rannsókn málsins. Þú verður bara að tala við lögregluna.” Að því loknu stóð hann upp og yfirgaf herbergið. Eiginkona hans Kate sagði þá: “Gefðu honum augnablik. Hann þarf rétt að ná andanum,” og í því kom Gerry aftur inn í herbergið.
“Allar spurningar þínar snúast um rannsókn málsins og við megum ekki tala um rannsóknina," sagði hann og bætti Kate því við að afar erfitt væru fyrir þau að búa við það að alls kyns sögusagnir um málið færu á kreik og að þau mættu ekki svara þeim. Þá sagði hún að þau væru bæði að kikna undan álagi.