Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt karlmanni 3.000 evrur (rúmar 260.000 kr.) í skaðabætur vegna læknamistaka sem urðu þegar maðurinn fór í heilskurðaðgerð. Græða þurfti plaststykki efst á höfuðkúpu mannsins eftir að kæliskápur á sjúkrahúsinu, þar sem aðgerðin var framkvæmd, bilaði.
Læknar fjarlægðu hluta af höfuðkúpu mannsins og settu í kæliskápinn á meðan þeir framkvæmdu aðgerðina. Kæliskápurinn var hinsvegar gallaður og kældi ekki stykkið sem læknarnir fjarlægðu. Af þeim sökum var ekki hægt að græða það aftur við höfuðkúpuna. Læknarnir ákváðu því að græða plastplötu í staðinn.
Maðurinn krafðist 20.000 evra í skaðabætur, en hann hélt því fram að plastið ylli honum höfuðverkjum auk þess sem það hefði áhrif á jafnvægið og gerði hann næman gagnvart veðurfarsbreytingum.
Eftir að hafa ráðlagt sig við sérfræðinga komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það væri aðgerðin, en ekki plaststykkið, sem olli manninum óþægindum.
Dómstólnum þótti því 3.000 evrur viðeigandi skaðabætur. Þá sagði talsmaður dómstólsins að nýja „toppstykkið“ væri í raun betra en það gamla.
Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.