Ríflega tíundi hver Bandaríkjamaður býr við fátækt

Rúmlega einn af hverjum tíu Bandaríkjamönnum, eða 36,5 milljónir manna, býr við fátækt, og eru börn og blökkumenn verst sett, samkvæmt ársskýrslu bandarísku hagstofunnar, sem birt var í gær. Þar kemur einnig fram að aldrei hafa jafn margir Bandaríkjamenn verið án sjúkratrygginga og nú.

Í skýrslunni kemur fram, að um 12,8 milljónir barna undir 18 ára aldri taldist undir fátæktarmörkum, eins og þau eru ákvörðuð af hagstofunni. Börnum sem voru án sjúkratryggingar í fyrra fjölgaði um 700.000 frá árinu áður. Alls voru í fyrra 47 milljónir Bandaríkjamanna án sjúkratrygginga.

Blökkumenn sem búa við fátækt eru þrefalt fleiri en hvítir. Bandaríkjamenn eru alls 302 milljónir, en sá fjöldi þeirra sem býr við fátækt er álíka mikill og allir íbúar Póllands.

George W. Bush forseti hefur sagt að „fleiri Bandaríkjamönnum vegni nú betur eins og efnahagslífinu sé háttað, laun halda áfram að hækka og fleiri Bandaríkjamenn vinna sig upp úr fátækt.“ Hagstofan segir vísbendingar um að tekjur fari hækkandi, og fátækum fækki.

Gagnrýnendur halda því fram, að hagvöxturinn komi einungis til góða þeim sem þegar séu vel stæðir, og bentu á að niðurstöður skýrslunnar um hlutskipti barna sýndu að ástandið væri algjörlega óviðunandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert