Stytta af Nelson Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, var afhjúpuð í á torginu utan við breska þinghúsið í miðborg Lundúna í dag. Var Mandela, sem orðinn er 89 ára, viðstaddur athöfnina og einnig Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Kvikmyndaleikstjórinn Richard Attenborough afhjúpaði styttuna en hann situr í stjórn sjóðs sem fjármagnaði verkefnið.
Brown sagði m.a. í ávarpi, að Mandela væri merkasti leiðtogi nútímans og elskaður og dáður fyrir hugrekki sitt.
„Þessi stytta er viti vonarinnar. Boðin sem hún sendir til heimsbyggðarinnar eru eftirfarandi: Óréttlæti getur ekki varað að eilífu, þjáningar í þágu frelsis eru aldrei til einskis, hversu lengi sem kúgunin varir mun bjarmi frelsisins sjást að lokum, og okkur mönnunum eru allir vegir færir þegar við vinnum saman," sagði Brown.
Mandela flutti einnig ávarp og sagði, að þótt styttan væri af einum manni ætti hún að vera tákn fyrir alla þá, sem hafa barist gegn kúgun, einkum íbúa Suður-Afríku. „Saga baráttunnar í Suður-Afríku er rík af hetjum, sumar þeirra hafa verið leiðtogar, aðrir fylgismenn en allir eiga það skilið að minningu þeirra sé haldið á lofti," sagði Mandela.
Styttan af Mandela stendur við hlið styttna af Winston Churchill, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, og Abrahams Lincolns, fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem beitti sér fyrir afnámi þrælahalds.
Embættismenn í stjórnkerfi Lundúnaborgar voru ekki á eitt sáttir um hvar styttan af Mandela ætti að standa. Ken Livingstone, borgarstjóri, vildi að hún yrði reist á Trafalgartorgi en borgarráðið hafði betur.