Musharraf lætur ekki Bhutto setja sér úrslitakosti

Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans.
Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans. AP

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, hafnaði því í dag að láta undan þrýstingi Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra landsins, um að hann skuldbindi sig til að láta af stöðu sinni sem æðsti yfirmaður herafla landsins gegn stuðningi hennar við áframhaldandi setu hans á forsetastóli. Bhutto hefur gefið forsetanum frest fram að helgi til að ákveða hvort hann gangi að tilboði hennar en það felur einnig í sér að henni verði gegnar upp sakir í spillingarmálum sem hún á yfir höfði sér.

"Forsetinn trúir á samningaviðræður í öllum mikilvægum málum en hann lætur ekki þvinga sig til neins eða setja sér úrslitakosti,” segir í yfirlýsingu Rashid Qureshi, talsmanna forsetans. “Forsetinn mun taka ákvarðanir sínar þegar það er tímabært og byggja þær á þjóðarhagmunum, stjórnarskránni og landslögum.”

Bhutto sagði í blaðaviðtali í gær að hún væri ekki að setja forsetanum úrslitakosti en að hún yrði að fá afgerandi svar í málinu fyrir næstu helgi

Samningaviðræður Musharrafs og Bhutto hafa valdið spennu innan pakistönsku ríkisstjórnarinnar og m.a. hefur Ijaz-ul-Haq, ráðherra trúmála í landinu, lagst gegn samningi þeirra. "Benazir Bhutto beitir Musharraf forseta fjárkúgunum til að koma sér inn um bakdyrnar. Það mun ekki verða liðið,” sagði hann en Haq er sonur Zia-ul-Haq, hershöfðingja og fyrrum einræðisherra landsins, sem á sínum tíma lét hengja föður Bhutto.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert