Þrjú palestínsk börn létu lífið er Ísraelsher gerði loftárás á norðurhluta Gasasvæðisins í gær. Samkvæmt upplýsingum Ísraelsher var árásin gerð á akur þaðan sem flugskeytum hefur verið varpað á Ísrael en börnin voru bedúínar sem bjuggu skammt frá akrinum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Samkvæmt upplýsingum Ísraelshers hefur 92 flugskeytum og 118 sprengjum verið varpað frá Gasasvæðinu yfir landamærin til Ísraels á undanförnum mánuði. Fulltrúar Ísraelshers segja herskáa Palestínumenn ráða börn til að sækja sprengjuvörpur sem notaðar eru til árása á Ísrael og að þeir harmi það að börn skuli notuð til hryðjuverka með þeim hætti.
Taher Nunu, talsmaður Hamas samtakanna sem ráða Gasasvæðinu, segir að það að árásin skuli hafa verið gerð í kjölfar fundar Ehuds Olmert, forsætisráðherra Ísraels og Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, sé sönnun herskárra fyrirætlana Ísraela og sýni fram á innihaldaleysi yfirlýsinga þeirra um að þeir vilji setjast að samningaborði við Palestínumenn að nýju.
Þrjátíu Palestínumenn slösuðust einnig í aðgerðum Ísraelshers í bænum Qalqilyah á Vesturbakkanum í gær en aðgerðir hersins þar miðuðu að því að handtaka herskáa Palestínumenn.