Bæjaryfirvöld í tékkneska bænum Havlickuv Brod íhuga nú að reisa múr til að skilja á milli svæða sígauna og hverfa annarra íbúa bæjarins. Sígaunar eru mjög óvinsælir í Tékklandi og segja félagsfræðingar í landinu að söguleg staða þeirra sem lágstéttar hafi jafnvel styrkts enn frekar í sessi eftir fall kommúnismans. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Sígaunarnir segja einnig sjálfir að síður en svo hafi dregið úr fordómum og mismunun gegn þeim á undanförnum árum en um tíu milljónir sígauna búa í Evrópu, flestir þeirra í Mið- og Austur-Evrópu.
„Vandræðafjölskyldurnar eyðileggja allt sem þær koma auga á í sameigninni,” segir Rudolf Stara, talsmaður íbúa í einu af fjölbýlishúsum bæjarins í samtali við blaðið Mlada Fronta Dnes. „Þær eru árásargjarnar, brjóta glugga, bílrúður og loftnet. Börn þeirra hoppa á bílunum og kasta steinum.”
Cenek Juzl aðstoðarbæjastjóri tekur í sama streng. „Þeir eru félagslega vanhæfir. Nágrönnum þeirra líður illa með þeim, þeir sóða út í kring um sig eyðileggja bíla. Það koma upp deilur í hverri viku. Það væri besta lausn að aðskilja íbúana."
Áður hefur verið reynt að að skilja svæði sígauna frá öðrum hverfum í Tékklandi en árið 1999 var fallið frá áformum um byggingu aðskilnaðarmúrs í bænum Usti Nad Labem vegna mótmæla mannréttindasamtaka.