Bandaríska tímaritið Forbes telur að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sé áhrifamesta kona heims um þessar mundir. Blaðið birtir árlega lista yfir valda- og áhrifamestu konurnar og er þetta annað árið í röð sem Merkel er efst á þeim lista. Listinn nú ber það með sér að áhrif viðskiptalífsins aukast stöðugt.
Wu Yi, aðstoðarforsætisráðherra Kína, er í 2. sæti og Ho Ching, forstjóri Temasek Holdings í Singapúr, er í 3. sæti. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er í 4. sæti og Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, í fimmta sæti.
Í næstu sætum eru Sonia Ghandi, leiðtogi Kongressflokksins á Indlandi, Cynthia Carroll, forstjóri námufélagsins Anglo American, Patricia Wortz, forstjóri Archer Daniels Midland, Irene Rosenfeld, forstjóri Kraft Foods og Patricia Russo, forstjóri Alcatel-Lucent.
Alls birtir Forbes nöfn 100 kvenna. Elísabet Englandsdrottning hækkaði um 23 sæti á listanum og er í 23. sæti. Blaðið vísar til þess að drottningin njóti nú vaxandi velvildar fjölmiðla.
Tveir Norðurlandabúar eru á listanum. Tarja Halonen, forseti Finnlands, er í 50. sæti og Antonia Ax:son Johnson, aðaleigandi Axel Johnson AB Group í Svíþjóð, er í 69. sæti.
Umfjöllun Forbes um áhrifamestu konur heims