Danir blekktir til að kaupa vélunnar tartalettur

Forsvarsmenn dönsku verslunarinnar Bilka hafa beðist afsökunar á því að hafa blekkt viðskiptavini sína með því að gefa í skyn að vélunnar tartalettur væru handgerðar en þetta er í annað skiptið á tveimur vikum sem forsvarsmenn Bilka viðurkenna að neytendum hafi verið veittar rangar upplýsingar um vörur verslunarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt upplýsingum neytendasíðu Jyllands-Posten felst blekkingin í því að vélunnum tartalettum er raðað upp með handbökuðu brauðmeti og þar sem viðskiptavinirnir telja að um handunna vöru sé að ræða geri þeir ekki athugasemdir við það að tartaletturnar kosti helmingi meira en aðrar tartalettur sem seldar eru í versluninni.

Er fréttamaður neytendasíðunnar spurðist fyrir um málið í þremur verslunum Bilka staðhæfðu verslunarstjórar þeirra að um handbakaða vöru væri að ræða. Erik Eisenberg, upplýsingafulltrúi Dansk Supermarked, staðfesti hins vegar að um vélunna vöru væri að ræða. “Því miður. Þær eru bakaðar í verksmiðju. Við höfum aftur verið staðin að villandi markaðssetningu og okkur þykir það mjög leitt. Við stöndum okkur ekki nógu vel. Eftir að síðasta tilfelli kom upp höfum við lagt mikla vinnu í að bæta upplýsingaþjónustu en við höfum greinilega ekki gert nóg,” segir hann.

Neytendasíða Jyllands-Posten greindi frá því í síðustu viku að smákökur, sem sagðar voru heimabakaðar og seldar voru í verslununum Bilka og Føtex, voru bakaðar í verksmiðjubakaríi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka