Konur í háskólum í Danmörku reikna ekki með að fá sömu laun fyrir vinnu sína að námi loknu og karlar. Ný könnun atvinnumiðlunarinnar Moment og ráðgjafaskrifstofunnar Reputation Institute á væntingum kynjanna leiðir jafnframt í ljós að munurinn á launavæntingum karla og kvenna í háskólum fer vaxandi. Þetta kemur fram á fréttavefnum Erhverv på Nettet.
Rannsóknin fór fram á meðan 9.000 nema í háskólum í Danmörku og leiðir hún í ljós að karlarnir vænta þess að fá 27.700 danskar krónur í mánaðarlaun í sínu fyrsta starfi að námi loknu en konur gera ráð fyrir að fá 24.600 danskar krónur.
"Laun eiga alltaf að endurspegla hæfni og við vitum frá öllum okkar rannsóknum að hæfni er ekki bundin við kyn. Það væri því að sjálfsögðu rétt að launakröfurnar væru þær sömu. Þrátt fyrir að kröfur karlanna endurspegli ekki alfarið þau laun sem þeir eiga eftir að fá þá hafa væntingar þeirra greinileg áhrif á það hvaða laun þeir fá. Þegar maður semur um laun í fyrsta sinn setur maður línurnar um framhaldið,” segir Morten T. Højberg, sérfræðingur Moment.