SÞ hefja rannsókn á hættulegum efnum sem fundust í New York

Höfuðstöðvar SÞ í New York.
Höfuðstöðvar SÞ í New York. AP

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, boðaði háttsetta embættismen samtakanna á sinn fund í New York í dag til að komast að því hvernig á því stæði að hættuleg efni, sem nota mætti í efnavopn, hafi verið geymd á skrifstofum SÞ á Manhattan.

Vopnaeftirlitsmenn SÞ greindu frá því í gær að þeir hefðu fundið lítilræði af fosgeni, sem litarlaust eiturefni frá dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar er ræðst á lungu fólks. Efnin voru geymd í ílátum sem höfðu verið flutt frá Írak til New York fyrir 10 árum síðan. Þar höfðu þau verið geymd allan þennan tíma.

Ban hyggst láta rannsaka við hvaða aðstæður efnin voru flutt frá Írak til Bandaríkjanna og hvers vegna efnin fundust árið 2007 en ekki fyrr. Þá vill Ban að kannað verði hvaða öryggisreglur séu gildandi í höfuðstöðvunum og nærliggjandi skrifstofum. Einnig vill hann láta rannsaka hvort öllum öryggisreglum sé fylgt.

Embættismennirnir, sem Ban kallaði á sinn fund, voru annað hvort farnir til Tórínó á Ítalíu á leiðinni þangað, en þar áttu þeir að vera viðstaddir leiðtogafund sem Ban á að stýra.

Ban hefur tekið þá ákvörðun að aðstoðarframkvæmdarstjóri SÞ, David Veness, sem sér um öryggismál, Alicia Barcena, sem heldur utan um framkvæmdarmál, varaaðstoðarframkvæmdastjóri SÞ, Asha-Rose Migiro og starfsmannastjóri SÞ, Vijay Nambiar, muni ekki taka þátt í ráðstefnunni vegna málsins sem upp kom í New York.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert