Suður-Kórea greiddi tvær milljónir Bandaríkjadala í lausnargjald fyrir 19 gísla sem talibanskir hryðjuverkamenn höfðu haft í haldi í sex vikur í Afganistan. Í japanska dagblaðinu Asahi Shimbun er haft eftir afgönskum milligöngumanni í samningaviðræðunum að þessi fjárhæð hafi verið greidd fyrir gíslana. Talsmenn bæði Suður-Kóreu og Talibana hafa borið slíkar fregnir tilbaka.
Í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter kemur fram sú skoðun að loforð Suður-Kóreu um að kalla um 200 s-kóreanska hermenn heim í skiptum fyrir frelsi gíslanna sé hæpin þar sem áætlanir um það hafi verið gerðar hvort eð er áður en til gíslatökunnar kom.
Ríkisstjórn Afganistans hefur gagnrýnt S-Kóreu fyrir að semja beint við Talibana og telur hún að það muni einungis ýta undir frekari aðgerðir af þessu tagi.